Greinar | 25.March

Færeyingar stunda kjarkaða utanríkisstefnu í samanburði við Íslendinga!


Huginn skrifar:

Íslenska ríkisstjórnin er nú að íhuga að sniðganga heimsmeistarakeppnina árið 2018 í Rússlandi til að sýna samstöðu með Bretlandi eftir að eitrað var fyrir fyrrverandi njósnara og dóttur hans í Bretlandi, segir Grapevine.is.

Grapevine segir að ,,…ef íslensk stjórnvöld halda til streitu áformum sínum um sniðgöngu, munu engir íslenskir stjórnmálamenn ferðast til Rússlands fyrir fótboltaviðburðinn. Umræður eru nú í gangi með því sem utanríkisráðherrann, Guðlaugur Þór Þórðarson,, kallar að sniðganga fótboltaviðburðinn með ,,…bandamönnum Íslendinga, hugsanlega er hér verið að vísa til annarra Norðurlanda."

Ætlun íslensku ríkisstjórnarinnar er hins vegar ekki að láta þetta bitna á landsliðinu né stuðningsmönnum liðsins, en báðum aðilum verður heimild frjáls för til Rússland og þátttöku á þessum sögulega viðburð í Íslandssögunni.

Á sama tíma hefur færeyski utanríkisráðherra Poul Michelsen þegar gert það ljóst að Færeyjar munu ekki taka þátt í neinum alþjóðlegum refsiaðgerðum gegn Rússlandi.

Michelsen benti á í viðtali við Kringvarp Føroya síðastliðinn sunnudag að ,,það er of óljóst hverju þetta mál beinist að (hver stóð að eiturbyrlun breska njósnarans) að sögn Local.fo. Það er hægt að taka undir þessi orð Michelsen, að þótt öll spjót standi á Rússa, þá er það ennþá ósannað tæknilega séð að þeir hafi framið þennan verknað.

Margar spurningar vakna í þessu sambandi. Af hverju skyldu Rússar taka svona áhættu rétt fyrir forsetakosningar í Rússlandi og hætta á fordæmingu umheimsins? Af hverju skildu þeir nenna að drepa gamlan njósnara sem þeir höfðu haft í haldi og skiptu á við Breta í fangaskiptum? Af hverju skyldu þeir, þegar þeir gerðu það sjaldan eða aldrei á dögum kalda stríðins, fara að taka upp á því að drepa njósnara sem var kominn á eftirlaun og brjóta óskráðar siðareglur njósnaheimsins? Hægt er að kaupa eiturefnaformúluna sem notuð var á Amazon og búa til á næstu rannsóknarstofu sem er reyndar í aðeins 12 km fjarlægð frá árásarstaðnum.

Michelsen benti einnig á að Rússland væri mikilvægur viðskiptavinur, sem Færeyjar hefðu ekki efni á að missa. Hann sagði jafnframt: "Við höfum haldið samstarfinu við Rússa eftir að ESB sniðgengu okkur (árið 2013) og við höfum komist að því að Rússar voru þarna til staðar fyrir okkur þegar ESB beittu okkur þvingunum, þá getum við ekki sniðgengið þá (Rússa) þegar þeir eru í neyð".

Í júlí 2013 lagði ESB refsiaðgerðir á Færeyjar vegna ágreinings um fiskveiðikvóta fyrir síld og makríl. Refsiaðgerðirnar sem hófust 28. ágúst 2013 banna færeyskum skipum að flytja síld eða makríl frá öllum ESB höfnum, þar á meðal Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi. Færeyjar gátu þar með ekki lengur flutt síld eða makríl til ESB landa. Aðgerðunum var aflétt 20. ágúst 2014 eftir umsnúning í samningaviðræðum en þá var færeyski hlutinn af heildar makrílkvóta aukinn úr 4,62% í 12,6%.

Það er þannig í réttarríki að sagt er að betra sé að glæpamaður sleppi en að saklaus maður sé hnepptur í fangelsi. Það er ennþá réttarríki á Íslandi og menn ættu að skoða öll málsatvik og fá einhverjar sannanir áður en í svona aðgerðir er farið. Hvað gerðist þarna? Getur verið að sökin hafi verið komin upp á Rússa? Eitthvað valdatafl bakvið tjöldin? Svo má spyrja hvort Íslendingar eigi að blanda sér í stórveldapólitík?

Hvað hafa Bretar gert fyrir Íslendinga? Hver er reynsla Íslendinga af Bretum á 20. öld og fram á þá 21.? Bretar, einir þjóða, hafa gert innrás í Ísland, árið 1940 eins og flestir vita. Það má skilja í ljósi þess að þá var heimsstyrjöld í gangi. Hins vegar var það ekki fyrirgefanlegt að hið nýja íslenska lýðveldi var kúgað af breskum yfirvöldum í þorskastríðunum þremur svonefndu og þeir héldu veiðum áfram þrátt fyrir að alþjóðalögum hafi verið breytt og beita þurfi valdi til að koma þeim af Íslandsmiðum. Hverjir stóðu þétt við bak Íslendinga þegar Bretar og aðrar Evrópuþjóðir settu löndunarbann á íslensk fiskiskip? Jú, Rússar! Alltaf voru fiskmarkaðir þar opnir fyrir íslenskar sjávarútvegsvörur en nú höfum við lagt bann á sölu íslensks fisks til Rússlands með ómældum skaða fyrir íslenskan sjávarútveg.

Eru Íslendingar búnir að gleyma ICESAVE - málinu og fantaskap Breta í því sambandi og það að þeir settu herlausa Ísland á hryðjuverkalista? Tom Fletcher, aðstoðarmaður Gordon Brown var hér á landi og kom með yfirklór útskýringar á verknaðinum. Hann minnist ekki á Icesave þvinganir sem voru síðar, og gerðar með yfirveguðum hætti. Ekki sé ekki sé minnst á efnahagsþrengingar Íslands í kjölfarið, þegar allar lánalínur lokuðust og evrópskir bankar lokuðu á Íslendinga. Hvar voru bandalagsþjóðir Íslendinga þá? Nú kýs Guðlaugur Þór utanríkisráðherra að fylgja Bretum að málum á móti Rússum. Ber Íslendingum einhver siðferðisleg skylda að hjálpa þeim með svona veikan málatilbúnað að baki og í ljósi sögunnar? Eigum við ekki að taka íslenska hagsmuni fram yfir hagsmuni Evrópusambandsins og Bretlands?