Greinar | 05.December

Er staða sendiherra bitlingastarf?

Huginn skrifar:

Ef til eru mikilvægustu lexíurnar sem koma út úr Klaustursmálinu þrjár. Í fyrsta lagi að þingmenn eigi ekki að drekka áfengi þegar þingdagur er, hvort sem það er innandyra, í húsnæði Alþingis eða á vertshúsi.

Í öðru lagi að hafa í huga hér eftir, að ef eitthvað á að segja í trúnaði um menn og málefni, þá verða viðkomandi að færa slíkt tal í heimahús eða lokuðu rými þar sem enginn óviðkomandi geti hlerað samtalið. Það er nefnilega svo, að nauðsynleg gæti verið að ræða um annað (samstarfs)fólk í trúnaði og það er alveg vel hægt án þess að níða skóinn af viðkomandi. Slíkt tal geti verið mat á störf viðkomandi eða eitthvað atvinnutengt.

Í þriðja lagi að stjórnmálastéttin hætti þessum hrossakaupum með embætti á vegum ríkisins. Á undanförum vikum hafa fyrrum þingmenn kvartað yfir að enginn vilji ráða þá til starfa. Þeir ættu ef til vill að líta í eigin barm og íhuga hvort framganga þeirra á Alþingi hafi ekki útilokað þá frá störfum; að verðandi starfsveitendur þeirra lítist hreinlega ekki á blikuna þegar viðkomandi og fyrrverandi þingmaður sækir um starf. Þetta er ef til vill meginástæðan fyrir að þingmenn sækist í störf á vegum hins opinbera, að enginn vill ráða þá til starfa og þeir sækjast í vellaunuð stjórnendastörf á vegum hins opinbera í staðinn.

Það hefur tíðkast svo, jafnvel fyrir tíma frönsku byltingarinnar, að stjórnvöld hafi ráðið fólk til starfa á vegum ríkisins, byggt á hæfileikum en ekki frændhygli. Ef til vill má rekja þetta til upphafs einveldis í Evrópu þegar konungur þurfti að mynda bandalag með borgarastéttinni gegn aðlinum, sem heimtaði stöður hjá ríkinu burt séð frá hæfileikum. Bandalag konungs við borgarastéttina reyndist vera gæfuríkt fyrir vestræn samfélög, því að ráðningar byggðar á hæfileikum tryggja góðan árangur í starfi og í heildina fyrir allt samfélagið.

Ráðning í stöðu sendiherra, án auglýsinga eða ekki sé leitað innandyra hjá utanríkisráðuneytinu, er ekkert annað en frændhygli og spilling. Þótt viðkomandi þingmaður gæti verið hæfileikaríkur búinn, þá er ekki þar með sagt að það finnist ekki einhver annar út í samfélaginu sem gæti jafnvel verið hæfari til starfsins. Margur embættismaðurinn innan utanríkisþjónustunnar, hefur gegnt stöðu sendifulltrúa í áratugi án þess að eiga þess nokkurn kost að fá stöðu sendiherra og eru mun hæfari.

Sumir pólitískt skipaðir sendiherrar hafa reynst skeinuhættir hagsmunum Íslands, og mátti sjá það í Icesave málinu, þegar menn nenntu hreinlega ekki að rífast við Breta og aðra. Aðrir bíða bara eftir að komast á eftirlaun, njóta þess að vera í vel launuðu starfi, með einkabílstjóra, heimilisþjónustu og glæsihýsi sendiherra erlendis og fá að hitta alla stóru kallanna í heimspólitíkinni í kokteilapartíum.

Þetta er brot á jafnræðisreglunni, að mismuna fólki eftir uppruna (þingmaður versus almennum borgara) og raun spillingarmál sem varðar við lög. Það ætti því ekki að koma stjórnmálamönnum á óvart, að fólk verði reitt og skundi á Austurvöll til að mótmæla slíkri svívirðu. Það kunna því að vera margvíslegar ástæður fyrir að fólk mætti á mótmælafundinn á Austurvelli þann 1. desember 2018 og þetta gæti verið ein af þeim.

Fyrsta krafa kjósenda ætti því að vera sú, að auglýsa eigi embætti á vegum hins opinbera og ráða fólk eftir verðleikum. Skyldi þetta nokkuð breytast? Mun stjórnmálastéttin ekki bar humma þetta af sér og halda áfram að ráða pólitískt í embætti?