Greinar | 09.January

Donald Trump og bókin Fire & Fury; Inside the Trump White House


Huginn skrifar:

Bók Michael Wolff: Fire & Fury; Inside the Trump White House hefur valdið miklu umróti hjá Donald Trump og fylgismanna hans en einnig meðal andstæðinga hans. Það hlakkar í mörgum og sumir halda að þarna hafi verið komið náðarhögg á forsetann Donald Trump.

Sumir bókagagnrýnendur lofa bókina vegna slúðursins sem hún inniheldur en aðrir meira gagnrýnni sjá marga vankanta á bókinni (sjá brot úr ummælum vandaðra fjölmiðla á meðfylgjandi mynd með þessari grein). Fjölmiðlar telja venjulega upp 10 til 15 atriði úr bókinni sem eiga að láta forsetatíð Trumps líta illa út. Skoðum þau 10 atriði sem talin hafa innihaldið mesta púðrið.

  • 1.Bannon taldi fund tengdasonar Trumps vera landráð.
  • 2.Trump rak í rogastans við sigurinn.
  • 3.Reiði Trumps á innsetningardaginn.
  • 4.Trump óttaðist Hvíta húsið.
  • 5.Ivanka girnist forsetastólinn.
  • 6.Yfirgreiðslugrín Ivönku.
  • 7.Óljós forgangsröðun samkvæmt lýsingu starfsmannastjóra Hvíta hússins.
  • 8.Aðdáun Trumps á fjölmiðlamógúlnum Rupert Murdoch.
  • 9.Murdoch segir Trump vera bjána.
  • 10. Fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi forsetans, Michael Flynn vissi að Rússatengslin yrðu vesen.

Allt er þetta spennandi aflestrar, ef maður les slúðurblöð yfirhöfuð en bókin fjalla ekkert um hvernig forsetinn Donald Trump hefur staðið sig í starfinu sem starfsmaður ríkisins.

Mesti gallinn á og gerir bókina lítt marktæka er að það vantar alla umfjöllun um trumpismann – það er að segja stefnu Trumps og fylgismanna hans. Þessi bók sem hefði átt að fjalla um mikilvægasta mann heims og stefnu hans gagnvart umheiminum, fjallar aðeins um deilur, öfund og reiði meðal starfsmanna Hvíta hússins en höfundur heldur því fram að hann hafi tekið 200 viðtöl við hina og þessa og haft beinan aðgang að forsetanum sjálfum sem hann neitar staðfastlega sjálfur.

Aðrar sögupersónur bókarinnar og Michael Wolff vitnar í, eins og Ivanka Trump og utanríkisráðherrann RexTillerson, neita einnig söguskýringu hans sem hefur hingað til helst getið sér orðs sem slúðurdálkahöfundur. Staðgengill yfirmanns starfsmannahalds Hvíta hússins, Katie Walsh, neitar að hafa látið í té upplýsingar til höfundar. Sarah Huckabee Sanders, talsmaður Hvíta hússins segir að bókin sé ,, complete fantasy and just full of tabloid gossip“ eða algjör fantasía og full af slúðri. Sanders sagði fréttamönnum á fréttafundi í Hvíta húsinu að 95% af viðtölunum fyrir bók Wolff hafi verið gerðar að beiðni Bannon og að höfundurinn hefði aðeins talað stuttlega við forsetann á sínum tíma en forsetinn hafi hafnað 24 beiðnum Wolff um viðtal.

Margar staðreyndavillur eru í bókinni. Til dæmis er Trump sagður þekkja ekki leiðtoga Repúblika, John Boehner, með nafni en alkunnugt er að þeir eru gamlir félagar í golfi og Trump tíst um manninn!

Bókin gefur engan innsýn inn í huga Trumps. Þetta er í raun ekki bók um Donald Trump, heldur um fólkið í kringum hann. Bókin beinir helst athygli sinni að Steve Bannon, sem Trump segist hafa rekið úr starfi. Hún segir frá upphaf samskipta þeirra og hæfni hans í að sjá möguleikana sem Bannon þóttist sá í Trump sem mögulegt forsetaefni.

Í bókinni er því haldið fram að hann hafi rutt brautina fyrir Trump í forsetaembættið. Bókin beinir athyglinni fyrst og fremst að fyrstu mánuðum forsetatíðar Donalds Trumps og þar til Bannon hverfur af sjónarsviðinu. Jafnvel á þeim augnablikum þegar Bannon var hvergi nærri, eru viðburðir séðir frá sjónarhorni hans. Steve Bannon fer hörðum orðum um Trump í bókinni. Trump segir hins vegar Bannon hafa grátið þegar Trump rak hann og grátbeðið um að halda starfinu. Trump segir líka að Wolff væri algjör „tapari“ (e. loser) sem hefði skáldað sögur til að selja „mjög leiðinlega og ósanna bók“ sína.

Það er óumdeilt að Steve Bannon hafði hönd í bagga í nokkrum mikilvægum ákvörðunum, eins og til dæmis múslimabanninu fræga en sú ákvörðun var mörkuð röð mistaka frá upphafi til enda. Bókin fjallar ekkert um aðrar ákvarðanir og forsetaskipanir sem hljótt fór um en hafa haft mikilvægar afleiðingar. Það er einfaldlega vegna þess að Trump er lýst í bókinni sem tusku bundna utan um vindhanann Bannon og annarra sögupersóna eins og tengdason hans Jared Kushner og dóttirina Ivanka.

Samkvæmt bókinni virðist Trump ekki taka ákvarðanir, heldur lætur hann ráðgjafa útbúa drög að tillögum og hann í hlutverki dómarans kveður upp dóm sinn, líkt og í sjónvarpsþáttaröðinni Áskorandinn (e. The Apprentice) eða hann fari eftir áliti síðasta viðmælanda sem talaði við hann.

En Trump tekur ákvarðanir sjálfur og sjá má það enn, eftir brotthvarf Bannons. Til dæmis virðist enginn hafa lagt til við Trump að kenna ,,báðum aðilum“ um andlát andstæðings fasistamótmælenda en hann tók þá ákvörðun upp á eigin spítur. Ákvörðunin um að skjóta eldflaugum á Sýrland er sögð vera vegna Power Point kynningar og fréttamyndar af deyjandi börnum og það hafi verið drifkrafturinn í ákvörðun hans, en það hlýtur að vera ástæða fyrir því að Trump valdi íhlutun þá en ekki í öðrum tilvikum. Afstaða Trumps til Norður-Kóreu er ekkert fjallað um í bókinni, þrátt fyrir að titill bókarinnar vísar í fræg ummæli hans í garð Norður-Kóreu - kannski vegna þess að hér er þetta spurning um stefnu og hugsun, ekki um slúðurmál.

Að mati greinahöfundar Indepentent, Andrew Griffin er ,,Þetta hvorki vitsmunaleg gagnrýni á trumpismann né pólitísk saga um uppgang hans. Þetta er slúðurbók, skrifuð um forseta sem býr til meira slúður en nokkur annar fyrirrennari hans og að hann hafi orðið frægur vegna hæfileika hans til að búa til veruleikaþátt fyrir umheiminn.“

Bókin er uppfull af smáatriðum sem teljast má vera slúður og einskins nýtar upplýsingar. Til dæmis að Trump hafi beðið um annað sjónvarp í herbergi sitt; að hann drekki gos og borði MacDonalds.

Wolff viðurkennir á einum stað í bókinni að það sé að hluta til satt að um Trump er fjallað öðruvísi en nokkurn annan forseta fyrir hans tíð, og að hann hafi einhvern rétt til að finna fyrir reiði vegna þess.

Á sama tíma og samtímis sem slúðurfréttirnar gerast, er ríkisstjórn Bandaríkjanna að breyta stefnu sinni viljandi í mörgum málum og setur í lög mörg mál án mikillar athygli. Öll athygli fjölmiðla og Wolff virðist beinast að tísti Trumps sem er oftast á persónulegum nótum en minna ber á stefnumörkun ríkisstjórnar hans sem skiptir öllu máli fyrir Bandaríkin og umheiminn. Sleppt er umfjöllun um ákvörðun ríkisstjórnar hans um aukningu á olíuborun á hafsbotni, niðurskurði á fjárhagsaðstoð við Pakistan og upphaf á ferli við að taka til baka afléttingu á banni við notkun marijúna sem sum ríki Bandaríkjanna hafa stigið skref í áttina til. Allt mikilvægar ákvarðanir sem varða umheiminn en á sama tíma leggur bókarhöfundur aðaláherslu á (með góðum rökum) að Trump sé trúður og ekkert annað. En þessi trúður getur tekið ákvarðanir og hann er óhræddur við það. Það má sjá af ákvörðun hans um að viðurkenna Jerúsalem sem höfuðborg Ísrael.

Það er ekkert í þessari bók sem lýsir styrkleika eða veikleika Trumps í hvaða stefnumörkunarmálum sem er. Í raun og veru er þetta gagnslaus bók fyrir bæði þá sem eru andstæðingar forsetans eða þá sem eru fylgismenn hans. Trump virðist vera þrautseigari að halda í stöðu sína en hann fær viðurkenningu fyrir en af hverju? Engin svör fást í bókinni. Í lok bókarinnar giskar Bannon á að það sé bara 33% líkur á að Trump klári forsetatíð sína – en er það eitthvað sem andstæðingar hans geta gert að raunveruleika? Þessi bók, sem á að gefa djúpa og nána mynd af göllum Trumps, býður upp á minna en ekkert.

Wolff er mjög áhugasamur um framboð Trumps út frá sjónarhorni taparans. Að hans mati var forsetaframboð hans ekki alvöruframboð né ætlað til árangurs, ekki að minnsta kosti samkvæmt almennum skilgreiningum. Trump hafi ekki keppt til sigurs. Að mati Wolff var þetta frægðarherferð, ekki forsetaframboð. En staðreyndin er eftir sem áður að Trump kom út sem sigurvegari og hann varð forseti Bandaríkjanna en það er lítið gert til að komast til botns af hverju það gerðist. Af hverju?

Bókin er samt ekki alveg gagnlaus (utan það að vera slúðurbók) en hún gefur okkur ágæta mynd af samskiptum Trumps við ráðgjafa sína, satt eða ósatt sem þar er sagt. Hvort sem er um að ræða samskiptin við Bannon eða aðra, og hvernig þessir aðilar ýta hann til og frá eða reyna það a.m.k., í þessa eða hina áttina. Og er það eins heimskulegt og kaótískt eins og það hljómar, að þegar Trump er á eigin spýtur, seint á kvöldin, að hann borði McDonald hamborgara og horfi á sjónvarp? Er þetta ekki bara einkamál hans sem einstaklings og skiptir það einhverju máli um gjörðir hans sem forseti valdamesta ríkis í heimi?

Forsetatíð margra annarra forseta var skrautleg, þótt ekki meira verði sagt. Af nógu er að taka , en gott er að minnast ástmögur bandarísku þjóðarinnar, John F. Kennedys, sem var ímynd fullkomleikans út á við, en bakvið tjöldin var hann bakveikur, var í bakbelti og hefði ekki getað farið í gegnum daginn nema með sprautum. Hann stundaði villt kynlíf með hinum og þessum konum í sjálfu Hvíta húsinu en þetta er ekki það sem bandarískur almenningur minnist hans fyrir, heldur þau góðu verk sem hann vann í þágu þjóðarinnar og þá von sem hann vakti í brjósti fólks um allan heim.

Það er oft þannig, að þegar rykið hefur sest og tíminn hefur liðið, að sagan fer öðrum höndum um viðkomandi leiðtoga. Hann verður dæmdur af verkum sínum en á sama tíma minnst á breyskleikana í framhjáhlaupi en hver hefur ekki einhverja breyskleika?

Heimildir:

Indepentent

http://www.independent.co.uk/news/world/americas/us-politics/donald-trump-book-steve-bannon-michael-wolff-review-latest-buy-best-a8144646.html og Variety

http://variety.com/2018/politics/news/fire-and-fury-wildest-claims-michael-wolff-book-1202654894/