Greinar | 30.January

Borgarstjórnarmeirihlutinn að tapa sér?

Huginn skrifar:

Hvert hneykslismálið rekur annað í höfuðborg landsins, Reykjavík. Mörg mál anga af spillingu og jafnvel lögbroti, svo sem braggamálið, félagsíbúðakerfið og fleiri og fleiri mál.

Dagur B. Eggertsson neitar að svara fjölmiðlum og var DV nú síðast að kvarta yfir þögn hans um braggamálið sem staðið hefur í þrjá mánuði en hann neitar viðtölum. Það er þó skylda hans sem opinbers embættismanns að veita svör við fyrirspurn fjölmiðla. Skilja má þögn hans sem undanbrögð eða yfirhylmingu.

Nú eru uppi spurningar, hvers vegna 70 milljónir hafi farið í minjavernd vegna braggans, en hann var aldrei friðaður af Minjastofnun, sem er lagalegur grundvöllur þess að getað flokkað framkvæmd undir minjavernd.

Næsta hneykslismálið virðist vera tveir pálmar í glerhjúpi sem kosta muni hátt í tvö hundruð milljónir að reisa en engar sögur fara af rekstrarkostnaði. Spurt er: ,,Er borgarstjórnarmeirihlutinn að tapa sér?“

Tölvupóstmálið er enn á dagskrá. Eyðing tölvupósta er alvarlegt lögbrot, að minnsta kosti er það álitið svo í Bandaríkjunum en frægt er þegar Hillary Clinton lét eyða tugþúsundum tölvupósta og hún er ekki búin að bíta úr nálinni með það mál. Það gilda strangar reglur hérlendis um meðferð opinberra gagna, þar á meðal tölvupósta.

Svo er annar kapítuli fyrir sig, ráðstöfun á skattfé borgarbúa, en samkvæmt fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar, eiga 450 milljónir að fara í gerð nýrra reiðhjólastíga en aðeins 1250 milljónir í viðhald gatna. Allir sem fara um götur Reykjavíkur, vita að illfært er um margar götur vegna fjölda hraðahindrana eða hreinlega vegna þess að vegirnir eru ófærir vegna skemmda í malbiki og þurfa ófáir ökumenn að sætta sig við sprungin dekk eða skemmdan hjólabúnað út af holum í götunum.

Er virkilega nauðsynlegt að ráðstafa hátt í hálfum milljarði í gerð hjólreiðastíga (ekki gangstíga sem væri meira skiljanlegra), í stað þess að setja meiri innspýtingu í viðhald vega?