Alþingi Íslendinga á rangri vegferð?

Þingmenn Íslendinga á Alþingi eiga að endurspegla samfélagið hverju sinni og vera nokkuð konar þverskurður samfélagsins en sú hugsun skýst í kollinn að stjórnmálastéttin sé ekki að ganga í takt við þjóðina og er að einbeita sér að málum sem skipta ekki máli fyrir heildina.  Í raun að hún endurspeglar ekki þjóðina né vilja hennar.

Kynslóðaskiptin sem hefur átt sér stað á Alþingi og hefur gefið af sér marga nýja þingmenn og eru margir þeirra óhefðbundnir í framkomu og klæðaburði.  Sumir þeirra er illa mæltir á íslenska tungu og eiga þessir kjörnu fulltrúar þjóðarinnar að semja vönduð lög á kjarnyrtri íslensku. Þjóðin getur fylgst með störfum Alþingis í beinni útsendingu í sjónvarpi og ef til vill er vaxandi virðingarleysi þjóðarinnar gagnvart þingheimi skiljanlegt, þegar sumir þingmenn opinbera vanþekkingu sína eða framkomu í þessum útsendingum.

Hugsjónaleysið virðist vera ríkjandi hjá flestum flokkum og þótt þeir segjast vera til vinstri eða hægri, þá virðist þeir helst vera að verja sérhagsmuni og fylgja lauslega yfirlýstri stefnu flokksins eða fleygja henni um leið og sest er í samsteypustjórn tveggja eða fleiri flokka. Þeir sem virðast hafa einhverjar hugsjónir, ráðast á grunngildi og stofnanir samfélagsins án þess að koma með lausnir.  Þeir sem teljast vera íhaldssamir, þegja þunnu hljóði, fara í vörn í stað þess að marka sér sérstöðu eða draga línu í sandinn. Ístöðuleysið er algjört og þingmenn virðast ekki skilja stefnu flokks síns né vilja umbjóðenda sinna, kjósenda enda er margoft farið gegn vilja meirihluta landsmanna.

Það má ef til vill líta á frumvarpið til laga um kjörgengi unglinga til sveitarstjórnarkosninga sem gott dæmi um ranga vegferð Alþingis, sem er síst til þess fallið að auka virðingu þess og áhrif. Það er svo margt sem mælir á móti að þeir fái að kjósa. Hér skulu talin upp nokkur atriði. Sextán ára unglingar eru til dæmis ekki kjörgengnir. Þeir mega ekki fara á vínveitaingastaði. Þeir eru á forræði foreldra sinna og lúta vilja þeirra (kannski í pólitík líka). Þeir hafa ekki bílpróf sextán ára né mega kaupa skráðan bíl. Þeir mega ekki versla í vínbúð né hafa sjálfstæðan fjárhag. Þeir hafa sjaldnast nokkurn áhuga á pólitík enda margir ekki komnir með þroska eða reynslu til að skilja gangverk þjóðfélagsins. Þeim óheimilt að skrifa undir skuldbindingar enda ekki lögráða. Þeir mega ekki gifta sig.

Það eru eflaust fleiri rök sem mæla á móti og sjálfsagt einhver sem mæla með. Til að mynda íbúalýðræði og ungir fái að ráða einhverju um nærumhverfi sitt sem er sveitarfélagið sem það býr í. En ef þeim er ekki treystandi fyrir ofangreint réttindi og skyldur, því skyldu þeir ráða einhverju um fjárhag sveitarfélagsins?

Á meðan bíða stóru málin óleyst sem hafa verið óleyst í marga áratugi. Það eru til að mynda kjör aldraðra og öryrkja sem þingheimur virðist aldrei hafa lausn á nema til bráðabirgða. Hægt er með einfaldri löggjöf tryggja lágmarks framfærslurétt þessara hópa með lagagerð og miða við að hann falli ekki undir fátækraviðmið.

Þingheimur virðist heldur aldrei geta tekið af skarið varðandi með stefnu í heilbrigðismálum né að byggja nýjan þjóðarspítala. Ekki er hægt að leysa húsnæðisvanda fátækra á Íslandi og þeim úthýst í fyrrum ,,flóttamannahúsnæði“ á Kjalarnesi en alltaf eru til nægir fjármunir til að bjóða til landsins flóttamannahópa sem fá samstundis húsnæði og framfærslu án skilyrða og eins lengi og þeir vilja.

Á sama tíma getur þingheimur ekki tekist á við tekjuskerðingar eða verðtryggingu lánastofnana en stór hluti launa borgara landsins renna beint í sjóði þeirra og til hvers? Til að vernda hagsmuni lánveitanda? Hvað með lánþega?

Ætla mætti að þegar þjóðarskútan fór á aðra hliðina, að álögur landsmanna yrðu afléttar með afnámi verðtryggingarinnar en tækifærið var ekki nýtt. Skuldaklafinn var aukinn upp í 110% lán í stað þess að afskrifa hluta skuldana. Þetta var víst ódýrara en að keyra gjaldþrota heimili í þrot. Hægt er að er að leysa málið með einfaldri lagagerð með algjöru banni á verðtryggingu og hámark á óverðtryggða vexti (lagasetning gegn okurvexti) en viljan virðist skorta. Það má setja lög gegn öllu eða fyrir öllu ef jafnræðisreglan gildir en lagagerðin strandar oftast á pólitískri hugsun eða hugsunarleysi stjórnmálamanna. 

Alþingsmenn virðast vera orðnir yfirstétt í landinu með kjör og laun sem jafnast á við laun forstjóra og ríkismanna. Sporslurnar virðist vera svo margar, að erfitt er að átta sig á heildarréttindi þingmanna.  Þingmenn fá alls konar styrki til að kaupa einfalda hluti sem hinn almenni skattborga myndi borga úr eigin vasa, til að mynda að kaup á GSM síma, niðurgreiddan mat í mötuneyti Alþingis o.s.frv. 

Hægt er að lesa um starfskjör þingmanna á vefsetri Alþingis. Þau skiptast annars vegar í þingfararkaup og þingfarar­kostnað alþingismanna. Lítum fyrst á kosnaðarliðinn sem þingmenn fá greiddan, verðskuldað eða óverðskuldað, hér skal látið ósagt hvort er.

  • Ferðakostnaður innan lands greiddur.
  • Húsnæðis- og dvalarkostnaður greiddur.
  • Símkostnaður greiddur sem tengist þingstörfum þingmannsins. Þingmaður getur fengið endurgreiddan kostnað við kaup á GSM-síma, allt að 80 þús. kr.
  • Ferðakostnaður erlendis greiddur, svo sem gistikostnaður og 50% fullra dagpeninga til viðbótar.
  • Þingmaður skal greiða ferðir til og frá flugvöllum heima og erlendis af dagpeningum. Starfsfólk fjármálaskrifstofu gerir ferðareikning í lok ferðar.
  • Starfskostnaður greiddur. Samkvæmt 9. gr. laga um þingfararkaup eiga alþingismenn rétt á að fá endurgreiddan kostnað sem hlýst af starfi þeirra. Hámark slíkrar greiðslu er nú 480.000 kr. á ári. Það geta verið fundir, ráðstefnur, námskeið o.fl. á eigin vegum. Þingmaður getur sótt fundi, ráðstefnur, námskeið o.fl. án þess að slíkt sé beinlínis á vegum Alþingis. Starfskostnaður er m.a. ætlaður að standa undir slíkum útgjöldum.
  • Tryggingar. Allir alþingismenn eru slysatryggðir allan sólarhringinn.
  • Styrktarsjóður alþingismanna. Alþingismenn skulu eiga rétt á hliðstæðri endurgreiðslu útgjalda og styrkja sem embættismenn njóta.

Þingfararkaup er vel yfir 1 milljón króna á mánuði, auk greiðsla fyrir nefndarstörf og aðra fundarsetu sem hækkar flesta þingmenn í launum um hundruð þúsunda króna á mánuði. Að frátöldu þingfararkaupi og starfskostnaði eru allar greiðslur til þingmanna fyrir kostnaði sem hlýst af þingsetu undanskildar tekjuskatti! Alþingismaður á rétt á biðlaunum, sem hefur setið á Alþingi eitt kjörtímabil eða lengur, er hann hættir þingmennsku. Biðlaun eru jafnhá þingfararkaupi, sem frá 30. október 2016 eru 1.101.194 kr. á mánuði, og greiðast þau í þrjá mánuði en í sex mánuði eftir þingsetu í tvö kjörtímabil eða lengur. Lífeyrisréttindi Alþingismanna eru gulltryggð (verða aldrei skerð) og eru háar lífeyrisgreiðslur í boði við upphaf lífeyristöku. Það má því með sanni segja, að þeir sem komast á Alþingi Íslendinga þurfa ekki að örvænta um framtíðarhorfur sínar né kvíða peningaleysi í ellinni. Er þörf einhverja breytinga?

MEST LESIÐ

AÐRAR FRÉTTIR