Greinar | 15.October

Afsögn borgarstjóra Reykjavíkur liggur í loftinu


Huginn skrifar:

Verstu borgarstjórnarúrslit í Reykjavík í ljósi sögunnar er staðreynd

Leikmaður sem fylgist með borgarstjórnmálunum úr fjarlægð, virtist tími Dags B. Eggertssonar vera kominn, það er að hann myndi segja af sér eftir úrslitin í sveitarstjórnarkosningunum síðastliðnum. Flokkur hans, Samfylkingin, með hann í forsvari hefur ráðið borgarmálum í 16 ár og mörgum myndi finnast það vera langur tími og tími kominn á breytingar. Úrslit kosninganna í Reykjavík voru óljós enda 16 framboð í boði en ljóst var að Samfylkingin hafði misst flug og stuðning borgarbúa. Hún fékk 25% atkvæða á meðan stærsti flokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn fékk 31%. Úrslit eða skilaboð kosninganna voru hunsuð og allt gert til að koma í veg fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn kæmist í völdin.

Viðreisn kom hinum fallna meirihluta í Reykjavík til bjargar og lengdi líf hans, því miður verður að segja, því að syndalistinn er langur sem Samfylkingin stendur á bakvið. Uppgjörið kemur í næstu kosningum, því að Reykvíkingar hljóta að sjá í gegnum sjónarspilið og spillinguna sem þarna ríkir. Skandalarnir og umdeildar ákvarðanir eru orðnar margar og margur myndi sundla við að reyna að byrja en hér skal það reynt og eflaust margt undanskilið.

Hneykslið í sambandi við braggann fræga er bara toppurinn á ísjakanum. Annað sem ber hátt á sama tíma er að Strætó er orðinn leigusali og rukkar erlenda strætisvagnabílstjóra um húsaleigu! Kíkjum kerfisbundið á borgarapparatið.

Skólakerfið í Reykjavík er illa rekið

Skólamál borgarinnar eru í ólestri, má þar nefna að skólar eru yfirfullir af börnum og með of fáa kennara. Skóli án aðgreiningar gengur ekki upp vegna þess að stoðþjónustan, þ.e.a.s. sérkennsla og annar stuðningur, er bágborin. Skólar hafa verið sameinaðir vegna sparnaðar og lélegs reksturs. Verra er ástandið í leikskólum, þar hefur verið viðvarandi mannekla vegna lélegra launkjara. Skólar sumir hverjir er illa farnir, má þar nefnda Breiðholtsskóla sem gott dæmi.

Umferðaöngþveiti í Reykjavíkurborg

Í vegamálum er af nógu að taka. Viðvarandi umferðaöngþveiti er á virkum dögum, hreinlega vegna þess að meirihlutinn borgarstjórninni neitar að leita nýrra valkosta, t.d. að opna hringveg í gengum Reykjavík og yfir í næstu sveitarfélög og opna þannig þriðju stofnbrautina til Reykjavíkur. Í dag var tilkynnt að það eigi að leggja brú yfir Fossvoginn og hleypa aðeins gangandi, hjólandi og strætisvögnum yfir brúna en mesta þörfin hefði verið að opna nýja leið fyrir bifreiðar þarna og létta á stofnbrautina sem liggur í gegnum Fossvoginn.

Annað er að mikil mengun er í Reykjavík, sem dregur fólk til dauða á hverju ári, og er ein ástæðan sú að götur eru ekki þrifnar reglulega. Óteljandi hjólreiðastígar eru byggðir á meðan göturnar eru stórskemmdar eða þrengt að þeim, líkt og á Hofsvallagötu, Grensásvegi og þrengingastefnan almennt er ótrúleg. Það eru yfir 1300 hraðahindranir og þrengingar í Reykjavík með tilheyrandi mengun og virðist þetta bara vera gert til að hægja á umferðinni, því að meirihlutinn undir forystu Dags B. Eggertssonar vill Reykvíkinga á reiðhjól, gangandi eða í strætó, óháð norðlægu veðurfari og heilsu fólks. Sjálfur á borgarstjórinn heima í um steinsnar frá ráðhúsi borgarinnar og til að komast þangað þarf hann einkabílstjóra og lúxusbifreið. Hvað kostar það?

Ekki er nóg að steinn er lagður í götu ferða borgarbúa, það þarf líka að eyðileggja aðkomu landsbyggðarfólks til borgarinnar en með mikill byggðaþéttinga hefur Samfylkingin, undir stjórn Dags B. Eggertssonar, eyðilagt bestu leiðina fyrir Sundabraut með því að afhenda útrásarvíkingi lóðir sem liggja við bestu leiðina. Aðrir valkostir eru rándýrir og ekki góðir umferðalega séð.

Dagur B. Eggertsson lofaði Miklubraut í stokk í kosningabaráttunni en kannaðist ekkert við hana eftir kosningar, enda engir peningar til. Annað sem tengist samgöngum, er að flug til höfuðborgar Íslendinga er í hættu en stefnt er fyrir opnum tjöldum að leggja flugvöllinn niður og allar brellur notaðar í því sambandi. Einkavinir fá að byggja á svæði Reykjavikurflugvallar, þrátt fyrir flestir vilja halda í flugvöllinn og neyðarbrautin fræga er nú ónothæf. Það eitt gæti stefnt lífi landsbyggðarfólks í lífshættu. Vonandi verður veturinn mildur og Reykjavíkurflugvöllur teppist ekki vegna óveðurs.

Talandi um teppur, það eru umferðarteppur á öllum tíma dagsins, og Dagur styður þau áform að byggja nýtt sjúkrahús á versta stað við Miklubraut, en þess má geta að þetta er stærsti vinnustaður landsins með mörg þúsund starfsmanna og sjúklinga. Þarna eru þegar umferðarteppur og fá bílastæði í boði fyrir neytenda sjúkrahússins.

Nýjasta vitleysan er Borgarlína, en enginn veit neitt um kostnað eða veit hvernig hún virkar eða hvaða farartæki verða notuð. Er borgarstjórn undir forystu Dags treystandi fyrir tugi milljarða sem eiga að fara í þetta verkefni og hvaðan koma peningarnir? Þeir eru ekki til í borgarsjóði, það er nokkuð sem er víst.

Borgarstjórn í ólestri

Undir forystu Dags B. Eggertssonar, hefur orðið til mesta skuldasúpa sem borgin hefur nokkru sinni séð í sögu sinni. Það var einn stjórnmálaflokkur sem boðaði stefnuna ,,báknið burt“ en það á einnig við um stjórn Reykjavíkur en það er orðið að ,,borgarbákni“. Sem dæmi fór rekstur borgarskrifstofu úr 150 milljónum yfir í tæpan milljarð á skömmum tíma en alls konar sérfræðingar eru ráðnir til starfa með óljósu hlutverki að gegna.

Ekki er mórallinn góður í borginni en kærumál ganga í borgarkerfinu vegna eineltis en mikil ákvarðanafælni virðist ríkja. Meirihlutinn undir stjórn borgarstjórans virðist ekki þora að taka ákvarðanir og setur flest mál í rándýrar nefndir, hundruð nefnda á spena útsvarsgreiðenda. Í mesta góðæri Íslandssögunnar, þar sem mestu tekjurnar af ferðmönnum fara til Reykjavíkur, tekst meirihlutanum að auka skuldir borgarinnar um 1 milljarð á mánuði.

Met fjölgun borgarstarfsmanna sem hefur orðið undanfarin misseri, sem engin úttekt hefur verið gerð á. Enginn veit hvað þetta blessaða fólk er að gera. Umboðsmaður borgarbúa virðist hindra framgang mála og borgarstjóri er hættur að tala beint við kjósendur.

Sorp- og veitumál eru skítamál í Reykjavík

Fyrir þá sem eru fljótir að gleyma eða fyrirgefa, þá má minna á skolpslysið mikla við Seltjarnarnes og reynt var að þagga niður eða a.m.k. borgarbúar ekki varaðir við menguninni en margir borgarbúar stunda sjósund og fóru margir í mengaðan; já drulluskítugan sjó. Minnast má húss Orkuveitu Reykjavíkur sem fornleifar en húsnæðið er að hálfu leyti ónýtt og ekki má gleyma fjáróreiðum sem ríkt hafa þar á bæ. Þá kemur næst upp í hugann Gvendabrunnarbakteríumálið. Á að telja hér meira upp?

Hér má bæta við fækkun sorphirðudaga og minnka þannig þjónustu við borgarbúa og hótað er að minnka sorpþjónustu enn frekar með djúpgámum og þetta á sama tíma og umhverfisvitund borgarbúa hefur stóraukist og fólk farið að flokka sorp kerfisbundið.

Húsnæðiskrísan er sjálfskaparvíti meirihlutans í Reykjavík

Mikil húsnæðiskrísa hefur ríkt í Reykjavík undanfarin misseri og leiguokur vegna skorts á framboði lóða, allt vegna stefnunnar um þéttingu byggðar. Á sama tíma eru úthverfin hunsuð og lítið byggt eða þeim sinnt, á meðan allt er gert fyrir 101 Reykjavík. Margar ákvarðanir varðandi lóðaúthlutun orka vægast sagt tvímælis, má þar nefna að lóð undir mosku var gefin til múslima sem hafa ekki enn hafið byggingu og nær samtímis þurfti Hjálpræðisherinn að borga fullt verð fyrir sína lóð og hann hrakinn úr húsnæði sínu úr miðbænum. Húsnæðinu var breytt í húsnæði fyrir hælisleitendur. Í raun er um metfjölgun heimilislausra á meðan hælisleitendur hafa allir sem einn húsnæði og vasapening í upp á að hlaupa.

Stefna Reykjavíkur er fjandsamleg börnum og öldruðum

Á sama tíma og mulið er undir hælisleitendur og stefnt er að taka á móti fleiri á næsta ári, er ekki hugað að þeim sem minnst mega síns. Hér er met fjöldi barna undir fátækramörkum og fyrir þá sem liggja lægst, er tjaldstæðinu í Laugardal lokað fyrir heimilislausa í vetur og þeim beint inn á heiðarnar í kringum kragann, í Heiðmörk eða Öskjuhlíð.

Lítið er gert fyrir aldraða og þeir eru á biðlista eftir að komast á hjúkrunarheimili og ef þeir komast þangað, þá þurfa þeir að deila herbergi með annarri manneskju og sumir þurfa að skilja við maka sína eftir áratuga samleið í gegnum lífið.

Já, þetta ljótur listi sem er ekki tæmandi. Sumir stjórnmálamenn myndu hiklaust axla ábyrgð og játa mistök og segja af sér. Er ekki bara þetta eina hneykslismál, braggamálið, eitt sér nóg til að Samfylkingin viðurkenni mistök og borgarstjórinn segi af sér? Málið virðist sýna í hnotskurn að eftirlitskerfi Reykjavíkurborgar virkar ekki og þar með stjórnkerfið. Hver ber ábyrgð á því? Er tími Dags B. Eggertssonar ekki liðinn?