Erlent | 27.January

Yrðu fyrstir Norðurlanda til að banna búrkur og niqab

Danska ríkisstjórnin hefur lagt drög að lögum um bann við búrkum og niqab að því að danska ríkisútvarpið greinir frá. Dönsk stjórnvöld munu nota tækifærið og útfæra bannið þannig að óheimilt verði að hylja andlit sitt á almannafæri svo sem með skíðalambhúshettum eða öðru þar sem aðeins sést í augu. Það er dómsmálaráðuneytið sem útbúið hefur drögin. Það mun síðan vera í höndum lögreglu hverju sinni að ákveða hvort ákveðin höfuðbúnaður brjóti í bága við lögin en menn gætu lent í vandræðum fyrir að ganga um með gerviskegg sem gerir þá óþekkjanlega.

Í lögunum er þó nefnt sérstaklega að búrka, niqab og lambhúshetta (sem hylur allt andlitið nema augun) sé fólki óheimilt að bera á almannafæri enda geri sá höfuðbúnaður fólk óþekkjanlegt. En stjórnvöld setja þann varnagla að ef verið sé að nota slíkan höfuðbúnað, eins til dæmis lambhúshettur af augljósum ástæðum, til dæmis vegna kulda, er það afsakanlegt. Einnig er mönnum gefin kostur á að leika jólasvein um jólin þó skeggið hylji nokkurn veginn allt andlitið. Svo er gert ráð fyrir því að heimilt verði að hylja andlit sitt inni í ökutæki enda skoðast ökutæki sem einkaumráðasvæði.

Það er alveg ljóst að lögunum er fyrst og fremst beint gegn búrkum og niqab fatnaði múslímskra kvenna og yrði bannið að veruleika væru Danir fyrsta norræna þjóðin til þess að banna þennan klæðnað alfarið á opinberum vetfangi.

Umræða um búrkubann á Íslandi

Á Íslandi hafa verið uppi raddir um bann við búrkum og niqab en enginn íslenskur stjórnmálaflokkur hefur tekið undir það eða hefur á stefnuskrá sinni nema Íslenska þjóðfylkingin. Þó má geta þess að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar hefur sagt að búrkubann sé réttlætanlegt út frá kvenfrelsissjónarmiðum. Þessi ummæli hennar vöktu litla hrifningu annarra félaga hennar í Viðreisn. Íslenska þjóðfylkingin hefur líka á stefnuskrá sinni að banna byggingu mosku á Íslandi. Flokkurinn hefur hins vegar ekki ennþá náð að bjóða fram í kosningum svo ekki er vitað hversu mikil stuðningur er við þessar kröfur hjá kjósendum.