Erlent | 06.June

Þarf aldrei að sprauta sig með insúlíni aftur

Ein pilla á morgnana og ein á kvöldin er nóg. Læknavísindunum hefur tekist að þróa lyf í pilluformi gegn sykursýki sem mun stórlega létta líf fólks sem hefur fæðst með sjúkdóminn. Í umfjöllun norska ríkisútvarpsins um málið er rætt við Therese Bruusgaard, sextán ára stúlku, sem segir að hún sé ákaflega glöð með að geta sloppið við að þurfa sprauta sig allt upp í 2500 sinnum á ári. Bruusgaard var sú fyrsta í Noregi sem fékk töflurnar og læknar reikna með að hún muni geta haldið áfram að taka þær út lífið, svo góður er árangurinn.

Þeir sem eiga mestan heiðurinn af nýju meðferðinni er Pål Njølstad prófessor og félagar hans við Háskólann í Bergen. Þeir uppgötvuðu að börn sem fæðast með sykursýki eru með genagalla í þeim hluta sem sér um að framleiða insúlín. Þeir prófuðu því að gefa börnunum lyfið sulfonylurea sem bindur sig við þessa boðleið genanna og insúlínframleiðsla verður eðlileg.

Njølstad hefur nú komist að þeirri niðurstöðu að áhrif lyfsins séu varanleg og þessi uppgötvun sé stórt „gegnumbrot“ í þeirri viðleitni að vinna gegn sjúkdómnum og halda honum niðri.


Myndin er af vef nrk.no