Erlent | 08.February

Tappaði blóði af syninum: Fjögurra ára fangelsi

36 ára kona var í dag dæmd af dómstól í Noregi fyrir illa meðferð á syni sínum en hún hafði stundað það í nokkur ár að tappa blóði af honum. Sonurinn er í dag sjö ára.

Konan hóf að tappa blóði af syni sínum þegar hann var vart orðin eins árs gamall. Konan hefur starfað sem hjúkrunarkona.

Hún hefur viðkennt að hafa stundað það að tappa blóði af drengnum í tvö til þrjú ár en saksóknari fullyrðir að vísbendingar séu um að meðferðin á drengnum hafi staðið yfir í lengri tíma.

Verjandi konunnar telur að dómurinn sé full þungur en konan sé andlega úrvinda eftir réttarhöldin og vilji ekki áfrýja dómnum.

Konan tók dómnum af yfirvegum og ró. Áður um daginn hafði hún brotnað saman þegar hún heyrði að dómurinn hefði fundið hana seka og þurfti hún hjálp við að yfirgefa dómssalinn. Nú þegar hún hefur heyrt uppkvaðningu dómsins hefur hún ákveðið að una dómsniðurstöðunni að sögn lögfræðings hennar.

Hún var einnig svipt öllum réttindum til að starfa sem hjúkrunarkona. Læknar komust að því að konan þjáist að Münchhausen sjúkdómnum sem lýsir sér þannig að hún skaðar aðra, til dæmis sitt eigið barn, til að fá athygli og samúð frá öðrum.

Konan var handtekin í september 2017 og hefur setið í varðhaldi síðan.