Erlent | 13.March

Sósíaldemókratar vilja banna trúarskóla í Svíþjóð

Tveir ráðherrar Sósíaldemókrata í ríkisstjórn Svíþjóðar leggja það til að trúarskólar verði bannaðir þar sem þeir viðhaldi aðskilnaði og hamli aðlögun. Þessari hugmynd hefur verið mótmælt úr samfélagi múslíma. Skólastjóri frískólans í Växjö sem rekin er af múslímum segir í viðtali við svt.se að hugmyndin sé slæm og efast hann um að hún standist Evrópusáttmálann.

„Þetta getum við ekki samþykkt, við stöndum fyrir eitthvað jákvætt,“ segir staðgengill rektors í íslamska skólanum í Växjö, Omar Abu Helal.

Ráðherrarnir Ardalan Shekarabi (S) og Anna Ekström (S) segja að rekstur frískóla á borð við trúarskóla auki á mismunun, hamli aðlögun og að staðreyndin sé sú að vandamálið hafi bara aukist hin síðari ár.

Helstu rök Helal gegn tillögunni er að skólar eins og íslamski skólinn í Växjö standi fyrir eitthvað jákvætt og börn og unglingar í slíkum skólum fái tækifæri til að styrkja sitt innra og hafi tengingu við sitt gamla föðurland og nemendur fari í margar námsheimsóknir. Hann segir þetta ekki ýta undir aðskilnað. „Við erum ekki að læsa að okkur,“ segir Helal.

„Tillaga þeirra brýtur í bága við Evrópusamninginn, að allir hafi rétt til að iðka trú sína. Við getum ekki samþykkt þetta, “ segir Omar Abu Helal í viðtali við svt.se.

„Kennarar eiga að kenna í sænskum skólum og stýra skólastarfinu, ekki ímamar. Eins og staðan er núna er engin leið til að vera viss um að það sé þannig. Það er mjög alvarlegt vandamál,“ segir Ardalan Shekarabi sem er ráðherra borgaralegra málefna.

Stuðla að ójöfnuði kynjanna

Ráðherrarnir nefna einnig að kynin séu aðskilin í þessum skólum á kennslutíma og nú hafi borist fréttir af því að stúlkur megi ekki nota sömu skólabíla og drengir og það sé áhyggjuefni.