Erlent | 22.November

Sósíaldemókratar unnu á í borgar -og bæjarstjórnarkosningum í Danmörku

Borgar –og bæjarstjórnarkosningar voru haldnar í Danmörku í gær. Niðurstöður liggja nokkurn vegin fyrir og virðist sem sósíaldemókratar hafi unnið á í kosningunum meðan Venstre og Danski þjóðarflokkurinn töpuðu fylgi.

Sósíaldemókrötum gekk vel á Norður- og Suður-Jótlandi. Í mörgum bæjarfélögum unnu þeir hreinan meirihluta fulltrúa og þar með borgarstjórastólana. Flokkurinn heldur til dæmis um borgarstjórastólinn í Sønerborg og Árósum. Í Kaupmannahöfn verður sósíaldemókratinn Frank Jensen áfram einn af yfirborgarstjórunum.

Stjórnarflokknum Venstre gekk ekki eins vel og fékk flokkurinn sem svarar 23ja prósenta fylgi á landsvísu sem er meira en 3ja prósentustiga tap ef miðað er við bæjarstjórnarkosningar 2013.

Danski þjóðarflokkurinn fær einnig nokkuð bakslag. Flokkurinn fékk í heildina 8,8 prósent í kosningunum í gær en fékk 10,1 prósent í kosningunum 2013.

Aðrir flokkar voru yfirleitt að bæta við sig eða tapa um eða innan við einu prósenti.