Erlent | 08.September

Sonur Duterte sakaður um að standa í eiturlyfjasmygli

Forseti Fillipseyja segist munu segja af sér ef eitthvað er til í því að fjölskyldumeðlimir í fjölskyldu hans standi fyrir eiturlyfjasmygli til eyjanna. Einn af sonum hans hefur verið sakaður um að hafa hjálpað til við að smygla eiturlyfjum frá Kína til eyjanna. Paolo Duterte svar af sér allar sakir fyrir rannsóknarnefnd þingsins og sagði að ásakanirnar væru „tilhæfulausar,“ segir í frétt BBC um málið.

Tengdasonur Duterte sem sakaður er um aðild að málinu neitaði allri vitneskju og kallaði ásakanirnar „gróusögur og þvætting.“

Forsetinn hóf herferð gegn eiturlyfjafíklum og sölum stuttu eftir að hann var kosinn forseti. Aðferðir hans hafa verið mjög gagnrýndar en þúsundir hafa verið drepnir í herferðinni og margir sagðir saklausir teknir af lífi. Annað virðist gilda um forsetafjölskylduna en forsetinn hefur lofað að segja af sér reynist ásakanirnar vera réttar.

Ásakanirnar koma frá eiturlyfjasala sem sagðist hafa heyrt nöfn þeirra nefnd í tengslum við eiturlyfjasendingu til eyjanna. Hann hefur síðan gefið út yfirlýsingu þar sem hann segir að þeir eigi ekki þátt í smyglinu.

Þingmaður segir forsetasoninn merktan glæpagengi

Stjórnarandstöðuþingmaður sagði í umræðum um málið á þingi að Paolo Duterte væri með tattó á bakinu sem sannaði að hann væri meðlimur glæpagengis sem smyglaði eiturlyfjum.

Paolo Duterte sagðist ekki svara ásökunum sem þessum en neitaði að lýsa eða sýna tattóið á bakinu.