Erlent | 26.July

Ríkisritskoðun komið á í Frakklandi?

Macron forseti Frakklands og flokkur hans á þingi hafa uppi áætlanir um að dómstólar og aðrar til þess bærar stofnanir geti látið loka fjölmiðlum, slóðum á erlenda fjölmiðla og aðrar internetsíður sem taldar eru útbreiða ósannar fréttir (e. fake news). Þetta hefur lagst illa bæði í stuðningsmenn stjórnarinnar og andstæðinga. Einnig hafa fleiri fordæmt þessar áætlanir eins og til dæmis stærstu fréttarmiðlar Frakklands og margir lögfræðingar.

Þessir aðilar óttast að slík lög verði bara forleikurinn að umfangsmikilli ríkisritskoðun.

Þannig segir ritstjóri Le Monde að áróður og falskar fréttir hafi alltaf verið til. Frekar ætti að uppfræða almenning, stjórnmálamenn og blaðamenn um hættuna af fölskum fréttum. Sérstaklega ætti að þjálfa fréttamenn í því að elta heimildir og sannreyna þær. Ritsjórinn segir að það sé barnaskapur að halda að hægt sé að koma í veg fyrir falskar fréttir með lagasetningu, fyrir utan þá hættu sem tjáningarfrelsi blaðamanna sé sett í þegar dómstólar geti bannað starfsemi fjölmiðla.

Vinsældir Macron hríðfallið

Vinsældir Macron hafa hríðfallið undanfarið. Hann þykir ekki lengur þessi alþýðlegi forseti sem margir héldu að hann yrði. Til dæmis húðskammaði hann ungan mann opinberlega fyrir að kalla sig að fornafni í staðin fyrir „herra forseti“. Mörgum finnst hann orðin helst til hrokafullur. Nýjasta hneykslismálið hefur líka farið illa ofan í þjóðina en lífvörður hans, dulbúinn sem lögregluþjónn, á að hafa ráðist að og barið mótmælendur 1. maí. Í því máli er Macron borið sökum um að hafa reynt að hylma yfir með lífverði sínum. Ýmsir spyrja hvort það séu fréttirnar sem Macron vill koma í veg fyrir að birtist í fjölmiðlum.