Erlent | 08.March

Réttarhöld yfir Madsen hefjast í dag

Í dag hefjast réttarhöld yfir uppfinningarmanninum og milljónamæringnum Peter Madsen sem ákærður er fyrir að hafa orðið sænsku blaðakonunni Kim Wall að bana um borð í kafbát í hans eigu og hann byggði sjálfur.

Málið þykir sérstakt og óhuggulegt. Samkvæmt fjölmiðlum í Danmörku er Madsen grunaður um að hafa beitt Wall hryllilegu kynferðislegu ofbeldi um borð í kafbátnum, myrt hana, hlutað líkið niður og að lokum fleygt líkamspörtunum í sjóinn.

Það mun opinberast betur í dag hvað nákvæmlega Madsen verður ákærður fyrir en nokkuð ljóst þykir að hann verði ákærður fyrir morð af yfirlögðu ráði og að hafa annað hvort kyrkt eða skorið Wall á háls um borð í bátnum en hann neitar alfarið að hafa myrt Wall.

Saksóknari mun líklega ákæra fyrir ósæmilega meðferð á líki. Madsen er líka grunaður um að hafa stungið Wall ítrekað í legið meðan hún var á lífi en því neitar Madsen líka.

Það sem Madsen játar er að hafa bútað líkið niður eftir að Wall varð fyrir slysi um borð í kafbátnum og lést en hann hefur marsinnis orðið tvísaga í málinu.

Réttarhöld í 12 daga

Réttarhöldin munu standa í 12 daga. Saksóknari mun krefjast lífstíðardóms og / eða að Madsen verði á vistaður á stofnun ótímabundið enda sé hann hættulegur samfélaginu.

Reiknað er með að 37 vitni verði kölluð fyrir dóminn en lögreglan yfirheyrði hátt í 200 manns á meðan á rannsókninni stóð.