Erlent | 05.January

Öryggisráðið heldur skyndifund um Íran

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna verður kallað saman á föstudag að beiðni Bandaríkjanna vegna óróans í Íran. Þetta kemur fram í tilkynningu frá sendinefnd Kasakstan sem er í forsæti öryggisráðsins.

Rússar hafa sett sig upp á móti fundi um málið en óvíst er hvort þeir reyni að hindra að fundurinn verði haldinn.

Nikki Haley sendiherra Bandaríkjanna í öryggisráðinu var búin að gefa það út í vikunni að hún myndi beita sér fyrir skyndifundi í öryggisráðinu um mótmælin í Íran.

Frá 28. desember hafa yfir 20 manneskjur látist í mótmælum gegn klerkastjórninni í Íran.

Fjöldagöngur hafa verið í landinu á miðvikudag og fimmtudag til stuðnings klerkastjórninni og ráðmenn hafa lýst því yfir að mótmæli gegn stjórninni séu liðin hjá og hafa sakað erlenda útsendara um að hafa æst til mótmælana gegn sér.

Á fimmtudag voru öryggissveitir stjórnvalda áberandi á götum Teheran og samfélagsmiðlar bera það með sér að mótmælendur hafi misst móðinn, í bili að minnsta kosti.

Myndin er af youtube.com og er ein margra sem andófsmenn hafa sent inn á vefinn.