Erlent | 15.November

Opinn markaður með þræla í Líbýu

Smyglarar eru farnir að reka opinn markað með fólk í Líbýu. CNN hefur rannsakað málið í nokkurn tíma og meðal annars birt myndbönd þar sem uppboð fer fram á fólki á opnum markaði.

Það sem fréttamenn urðu vitni að var eins og aftur úr forneskju; uppboð á fólki til þrælahalds. Það eina sem vantaði uppá sviðsmyndina var að fólkið hefði hlekki og keðjur á höndum og fótum.

Uppboðið fer þannig fram að manneskja er sett á svið og svo geta viðstaddir boðið í fólk.

„Heyri, ég átta hundruð....900....1.000...,“ segir uppboðhaldarinn. Maðurinn er seldur og lýsingin er að hann sé góður í að grafa skurði, stór og sterkur. Hann lítur út fyrir að vera tvítugur.

Fréttamenn CNN reyndu að tala við nokkra þeirra sem seldir voru á uppboðinu en þeir voru svo skelfdir að þeir gátu ekki talað og einnig voru þeir mjög hræddir við allt og alla.

Líbýska strandgæslan hefur í samvinnu við ESB stórhert eftirlit með smyglurum við strendur Líbýu. Það hefur leitt til þess að færri bátar komast af stað en smyglararnir „sitja uppi“ með heilu hópana af fólki sem ekkert kemst. Þeir hafa því brugðið á það ráð að fara að selja fólk.

Fréttamennirnir hafa komið þeim upplýsingum sem þeir hafa um málið í hendur yfirvalda í Líbýu og hafa yfirvöld lofað að rannsaka málið.