Erlent | 30.May

Óhuggulegt náttúrufyrirbrigði: Lirfur pakka trjám inn í vef

Gott veður og miklir hitar hafa skapað kjöraðstæður fyrir lirfur og óvenjulegt náttúrufyrirbrigði sem Dönum finnst nokkuð óhugnanlegt. Þúsundir lifra taka sig saman og pakka heilu trjánum inn í vef. Þetta er ekki óþekkt en umfang þessa fyrirbrigðis í byrjun þessa sumars er mjög óvenjulegt. Ef gengið er alveg upp að svona trjám má sjá þúsundir spriklandi lifra fyrir innann vefinn. Óhuggulegt en heillandi á sama tíma segir í umfjöllun Danska ríkisútvarpsins um málið.

Ástæðan fyrir því að lirfurnar pakka trjánum inn, gera þær til þess að vernda sig fyrir soltnum fuglum og svo þær geti í rólegheitum étið blöðin á trjánum. Eins og áður segir er þetta náttúrufyrirbrigði ekki óþekkt í Danmörku en nú er það orðið svo útbreitt að mörgum þykir nóg um. Í viðtali við ríkisútvarpið segir náttúrufræðingur að venjulega rigni eitthvað í maí og kröftug rigning geti gert gat á vefhjúpinn og þá komast fuglarnir í gegn og éta lirfurnar. En í ár hefur ekki rignt nógu mikið eða kröftuglega í maí til þess að vinna á vefhjúpnum.

Hún gefur því fólki sem verður fyrir því að lirfur pakka inn tré eða trjám í garðinum þeirra það ráð að hjálpa náttúrunni svolítið með því að einfaldlega að gera gat á vefhjúpinn.


Myndin er af vef dr.dk