Erlent | 03.January

Nemur tilfinningu í gegnum gervihönd

Vísindamenn hafa sett gervihönd eða „rafhönd“ á konu og er höndin þeim eiginleikum búin að manneskjan finnur fyrir hlutum sem hún snertir með henni.

Í frásögn BBC af málinu segir að höndin komi rafboðum til heilans í gegnum efrihandlegginn sem nemur þau sem tilfinningu.

Nemar í fingrum gervihandarinnar senda boð í tölvu sem hún er með á bakinu og sem túlkar skilaboðin og sendir í rafskaut sem grædd hafa verið í efri handlegg.

Konan sem heitir Almerina Mascarello missti höndina í slysi fyrir um 25 árum síðan.

Hún segist finna fullkomlega fyrir þeim hlutum sem hún snerti og geti núna til dæmis reimað á sig skó.

Mascarello segist vona að þróunin verði hröð á hendinni og að ný og eðlilegri útgáfa líti dagsins ljós sem fyrst.