Erlent | 16.November

Margir fegnir að losna við Mugabe

Þó svo margir hafi í orði fordæmt valdatöku hersins í Zimbabwe er unnið að því á bak við tjöldin að málin gangi friðsamlega fyrir sig í landinu. Þar gegna Suður-Afríkumenn lykilhlutverki en sendinefnd á þeirra vegum er komin til landsins.

Svo virðist sem herinn eða þeir sem standi fyrir því að setja Mugabe forseta af ætli sér að ná víðtækri samstöðu um friðsamlega leið í stjórnmálum landsins. Einn helsti forystumaður stjórnarandstöðunnar, Morgan Tsvangirai, er komin til landsins en hann hefur dvalið erlendis í læknismeðferð.

Talsmenn flokks Tsvangiari segja að viðræður hafi átt sér stað milli hersins og stjórnarandstöðunnar um að mynda stjórn á breiðum grunni. Það þýðir með öðrum orðum að stjórnarandstaðan verði þar innanborðs.

Heimildir erlendra fjölmiðla herma að prestur Mugabes hafi reynt að bera sáttaorð á milli og hvatt Mugabe til að leggja friðsamlega niður völd. Ekki er vitað hvar fyrrum varaforsetinn Emmerson Mnangagwa heldur sig en hann er sagður eiga sterkan stuðning í hernum. Ekki er heldur vitað hvar eiginkona Mugabe er niður komin. Mugabe rak varaforsetann fyrir nokkru og sagt er að það hafi verið til að styrkja stöðu eiginkonunnar til að taka við forsetaembættinu.

Gamlir vinir snúast gegn Mugabe

Samtök uppgjafahermanna, sem hafa hingað til verið hörðustu stuðningsmenn Mugabes, hafa hvatt hann til að leggja friðsamlega niður völd. Samtökin hyggjast boða til útfundar á laugardaginn, í höfuðborginni Harare, til að sýna fyrrum varaforseta landsins stuðning.

Einnig hefur formaður ungliðahreyfingar ZANU flokks Mugabe beðist afsökunar opinberlega á að hafa gagnrýnt yfirmenn hersins og sakað þá um að stela fjármunum úr ríkissjóði í samvinnu við kínverskt námafyrirtæki. Hann sagðist hafa gert misstök. „Við erum jú, bara ung og okkur leyfist að gera mistök,“ sagði Kudzanai Chipan formaður ungliðasamtakanna.

Mugabe er í stofufangelsi þó herinn neiti því að hafa sett hann af, heldur séu aðgerðir hersins honum til verndar. Í kring um Mugabe segir herinn að sé hópur glæpamanna sem ætli notfæra sér forsetann og skaða þjóðina.

Mugabe hefur stjórnað landinu í 37 ár. Hann hefur barið niður alla andstöðu með harðri hendi og sökkt landinu niður í mikla fátækt og spillingu og eflaust margir fegnir að losna við forsetann.