Erlent | 05.September

Margir Svíar kannast við það þjóðfélag sem Svíþjóðardemókratar lýsa

Nýjustu kannanir um úrslit í sænsku þingkosningunum eftir um viku sýna að Svíþjóðardemókratar hafa mikinn byr. Pirringur er í vinstri pressunni bæði í Svíþjóð sem og í öðrum vinstri miðlum á Norðurlöndum. Hér heima birtist þessi pirringur helst hjá Fréttablaðinu og Ríkisútvarpinu/sjónvarpinu. Þessir miðlar hafa haldið því mjög á lofti að fylgi Svíþjóðardemókrata sé tilkomið vegna áróðurs þeirra gegn innflytjendum og hælisleitendum í Svíþjóð eins og margir norrænir miðlar á vinstri vængnum. Svíþjóðardemókratar segja á móti að fylgi þeirra sé tilkomið vegna þess að ástandið er orðið eins og þeir lýsa því og fólk kannist við lýsinguna enda hafa margir venjulegir Svíar orðið vitni af bílabrennum og skotárásum í sínu nágrenni. Kannanir sýna líka að afbrot framin af innflytjendum eða hælisleitendum hefur stórlega færst í vöxt.

Aðrir gamalgrónir stjórnmálaflokkar í landinu einfaldlega neita því að í landinu ríki það ástand sem fólk hefur orðið vitni að. Það virðist stefna þeirra að stinga höfðinu í sandinn, neita ástandinu, og heita því að aldrei verði farið í samstarf með Svíþjóðardemókrötum.

Danski þjóðarflokkurinn snéri afstöðu annarra flokka í Danmörku

Þeir sem hafa kynnt sér stjórnmálin á Norðurlöndum vita að í Danmörku ríkti svipað viðhorf gagnvart Danska þjóðarflokknum af hálfu annarra flokka í landinu. Enginn vildi vinna með Þjóðarflokknum. Í dag er staðan sú að nánast allir flokkar hafa breytt stefnu sinni í málefnum innflytjenda og hælisleitenda. Kjósendur streymdu frá þessum flokkum yfir til Þjóðarflokksins og á endanum viðkenndu til dæmis Jafnaðarmenn að fólk var reitt yfir þeirri þróun sem hafði orðið í Danmörku í málefnum innflytjenda, flóttafólks og hælisleitenda.

Verður næsti forseti sænska þingsins úr röðum Svíþjóðardemókrata?

Allir stjórnmálaskýrendur eru á einu máli um að kúvending sé á næsta leiti í sænskum stjórnmálum. Spurningin er bara hversu stór sigur Svíþjóðardemókrata verður og hvort hann nægi þeim til þess að verða í oddaaðstöðu þannig að aðrir flokkar geti ekki hunsað flokkinn eða gert hann áhrifalausan á þinginu eftir kosningarnar. Það yrði auðvitað snúin staða fyrir lýðskrumsflokkana á vinstri væng íslenskra stjórnmála ef næsti forseti sænska þingsins yrði úr röðum Svíþjóðardemókrata. Það yrði uppákoma hjá þingmönnum Pírata, Viðreisnar, VG og Samfylkingar ef þeir þyrftu að mæta á fund þar sem forsetar Norrænu þingana væru í heiðursæti, forseti sænska þingsins frá Svíþjóðardemókrötum og forseti danska þingsins frá Danska þjóðarflokknum.