Erlent | 16.November

Lottó: Var með símanúmer hjá lottóinu vistað í hraðvali

Kona sem vann næsthæsta lottóvinning í sögu Noregs, í Víkingalottóinu í gær, var með símanúmer hjá lottófyrirtækinu vistað í hraðvali í símanum sínum. Í þetta sinn hafði hún ekki hringt í númerið til að heyra nýjustu tölurnar.

Hún vissi ekki af vinningnum fyrr en Norsk Tipping náði sambandi við hana og tilkynnti henni um vinninginn sem hljóðar upp á um fjóra milljarða íslenskra króna.

Konan varð að vonum ákaflega glöð og segir starfsmaður lottófyrirtækisins að hún hafi hlegið stanslaust í dágóðan tíma.

Vinningshafinn hafði alltaf verið vongóður um að vinna stórt í lottóinu þess vegna hafði konan sett númer símsvara lottófyrirtækisins inn í hraðval hjá sér og hringdi reglulega strax eftir úrdrátt til að heyra nýjustu tölurnar. En í þetta sinn hafði hún gleymt því.

Vinningshafinn mun fá boð um að hitta fjármálaráðgjafa en vinningurinn verður greiddur inn á reikning konunnar eftir nokkra daga.