Erlent | 16.September

Kaupmaður lánar kúnnanum lykilinn að versluninni eftir lokun

Kaupmaður í Staby litlum bæ vestur af Holsterbro hefur ákveðið að traustustu kúnnarnir hennar fái lykil að versluninni eftir að hún hefur lokað búðinni klukkan sex og er farin heim. Kaupmaðurinn, Anita Sørensen, segir að hún hafi oft frétt af því að kúnnar hafi komið rétt eftir lokun og hún farin heim.

-Kúnninn er kannski búin að keyra fimm kílómetra í bæinn og fúlt ef búið er að loka og manni vantar bara tvö kíló af sykri. Þá væri þægilegt að geta bara hleypt sjálfum sér inn eftir klukkan sex, segir hún í viðtali við danska ríkisútvarpið.

Hún segist hafa fengið hugmyndina eftir að hafa heyrt um bókasöfn sem hafa með góðum árangri látið viðskiptavini fá lykilinn af safninu ef viðskiptavinurinn þarf að komast inn eftir lokun og ná sér í bók.

- Ef þetta virkar á bókasöfnunum þá sé ég ekki af hverju þetta ætti ekki líka að virka hjá mér?

Fastakúnnar eru himinlifandi yfir þessu fyrirkomulagi en margir þeirra eru þó efins um að þetta myndi ganga í stórborg. - Svona fyrirkomulag gengur bara í bæ eins og Staby vegna þess að bærinn er lítill og allir þekkja alla, segir kona sem er fastakúnni verslunarinnar.

Aðrir kúnnar telja þó að með nútímatækni geti þetta gengið hvar sem er, líka í stórborgum.