Erlent | 11.June

Ítalir segjast vilja hjálpa fólki á þeirra heimaslóðum: Lokar ítölskum höfnum

„Við tökum ekki á móti neinum. Frakkland sendir fólk til baka yfir landamærin. Spánn ver sín landamæri með vopnavaldi,“ skrifar hinn nýi innanríkisráðherra Ítala, Matteo Salvini á fésbókarsíðu sína.

„Frá og með deginum í dag mun Ítalía líka segja nei við mansali, nei við ólöglegum innflytjendum. Mitt mál er að tryggja þessu unga fólki friðsamt líf í Afríku og fyrir okkar börn hér á Ítalíu,“ segir Matteo Salvini ennfremur í fésbókarfærslunni.

Tilefni færslunnar er að samtök sem gera út skip við strendur Líbýu og tína þar upp bátafólk sem er að reyna að komast til Vesturlanda hafa tilkynnt að skip þeirra sé á leiðinni til Ítalíu með 629 manns innanborðs.

Skipið siglir framhjá Möltu: Kemur okkur ekki við segja stjórnvöld á Möltu

Á leiðinni til Ítalíu siglir skipið framhjá Möltu en þarlend stjórnvöld hafa gefið út stutta tilkynningu um að þau taki heldur ekki við fólkinu.

Salvini spyr einnig hvert sé eiginlega orðið hlutverk svo kallaðra hjálparsamtaka sem gera út skip til að hjálpa fólki að komast ólöglega til Ítalíu. Er þau að breytast í „leigubíla þjónustu“ spyr hann.