Erlent | 17.February

Hraðasta lest Indlands: Keyrði á kú á fyrsta degi og bilaði

Fyrsta ferð nýjustu hraðlestar Indlands byrjaði ekki vel. Lestin var vígð af forsætisráðherra Indlands í gær. Lestin nær meiri hraða en aðrar lestir í Indlandi og var því mikið um dýrðir þegar forsætisráðherrann gaf lestinni merki um að taka af stað í sína fyrstu ferð.

Eftir að lestin var komin af stað, en hún getur náð allt að 180 kílómetra hraða, keyrði hún á belju sem stóð á teinunum og bilaði í framhaldinu.

Lestin var á leiðinni til Nýju Delí þegar hún keyrði á beljuna og við höggið biluðu bremsur lestarinnar.

Lestin tafðist í klukkutíma áður en hún gat haldið ferðinni áfram.

Það er ekki óalgengt að lestir á Indlandi keyri á beljur sem flækjast út á lestarteinanna og veldur það reglulega vandræðum og töfum í lestarkerfinu.

Atvikið hefur beint umræðunni að stefnu ríkisstjórnarinnar í lestarmálum landsins en ríkisstjórnin hefur mjög metnaðarfulla áætlun um nútímavæðingu lesta á Indlandi og kannski eru ráðherrar ríkisstjórnarinnar full kappsfullir að hæla eigin stefnu í málaflokknum.

Fyrir stuttu setti ráðherra lestarmála upptöku af nýjustu hraðlestinni á netið. Fyrir það hefur hann verið harðlega gagnrýndur, vegna þess að greinilegt er að hraði lestarinnar eru skrúfaður upp í myndbandinu.