Erlent | 07.February

Hin rússneska Paris Hilton skorar Pútín á hólm?

Framboð hinnar þekktu sjónvarpsstjörnu Ksenia Sobtsjak var samþykkt af kjörstjórn í gær. Þessi unga kona tilkynnti í fyrra að hún hygðist gefa kost á sér á móti Pútín í forsetakosningunum og tóku menn þessu þá ekki af mikilli alvöru.

Henni hefur verið lýst sem Paris Hilton Rússlands en hún þykir minna um margt á þá amerísku. Sobtsjak hefur lagt ýmislegt fyrir sig, hún er sjónvarpsstjarna, bloggari, leikari og slær um sig í hinu ljúfa lífi fræga og ríka fólksins í Rússlandi. Hún vinnur á óháðu sjónvarpsstöðinni Dozjd og í kosningabaráttunni um forsetaembættið hefur hún komið fram sem frjálslyndur frambjóðandi og er ekki hrædd við að tala opinskátt gegn Pútín. Þannig spurði hún Pútín ögrandi spurninga á fréttamannafundi sem haldin var í desember í fyrra. Hún spurði forsetann þar út í mannréttindi á Krím, hvort hann væri hræddur við stjórnarandstöðuna og fleira í þeim dúr sem hefur eflaust pirrað forsetann.

Margir telja maðk í mysunni

Ekki eru allir á eitt sáttir um hvort framboð Sobtsjaks sé heiðarlega fram komið og til eru þeir sem telja henni stýrt frá Kreml. Enda er hún líka umdeild í Rússlandi fyrir það glamúr líf sem hún hefur lifað og svo benda menn á tengsl hennar við Pútín. Hún segir líka sjálf að annað hvort elski fólk hana eða hati hana, þannig er það bara. Svo eru það tengslin við Pútín. Faðir hennar Anatolij Sobtsjak var borgarstjóri í St. Pétursborg og um 1990 og sagt er að hann hafi verið pólitískur leiðbeinandi Pútíns á þeim árum. Pútín er jafnvel sagður guðfaðir hennar.

Samsæriskenningar ganga út á það að ætlunin sé að tvístra atkvæðum andstæðinga Pútíns með þessu gervi framboði, ef satt er.

Eins og er virðist Pútín ekki stafa mikil hætta af Sobtsjak en hún hefur ekki náð neinu sérstöku flugi í skoðanakönnunum, nýtur einungis um 12% fylgis.