Erlent | 04.January

Greenpace tapar dómsmáli gegn norska ríkinu vegna olíuleitar í Barnetshafi

Greenpace samtökin og félagsskapur í Noregi sem kallar sig „Natur og Ungdom“ tapaði í dag máli gegn norska ríkinu. Málið var höfðað til að koma í veg fyrir að norska ríkið gæfi olíuborunarfyrirtækjum leyfi til þess að bora eftir olíu í Barnetshafi.

Umhverfissamtökin höfðuðu málið á grundvelli 112. greinar í norsku stjórnarskránni sem oft er nefnd umhverfisgreinin.

Hún gengur út á að allir eigi rétt á náttúrulegu umhverfi sem tryggir heilsu þeirra og að fjölbreytileiki náttúrunnar skuli varðveittur. Einnig er talað um í 112. greininni að náttúran skuli varðveitt með langtímasjónarmið í huga fyrir komandi kynslóðir.

Niðurstaða réttar í Ósló er sú að norska ríkið brjóti ekki gegn þessari grein.

Umhverfissamtökin söfnuðu hálfri milljón undirskrifta gegn ætlun stjórnvalda að gefa 13 fyrirtækjum leyfi til að bora eftir olíu í suðaustlægum hluta Barentshafsins.

Greenpace og Natur og Ungdom voru dæmd til að greiða um hálfa milljón norskra króna í málskostnað sem gerir rétt rúmlega sex milljónir íslenskra króna.