Erlent | 23.April

Grænlendingar vilja tala grænlensku og ensku

Í Grænlandi fer nú fram umræða innan stjórnmálaflokkana um stöðu grænlenskunnar í þjóðfélaginu og skólanum. Grænlenskir ráðamenn hafa áhyggjur af því að fáir Grænlendingar hafa framhaldsmenntun. Flestir láta grunnskólagönguna nægja.

Stærsti flokkurinn í Grænlandi Siumut hefur sett það á stefnuskrá sína að í skólum landsins verði töluð grænlenska sem aðalmál, þar á eftir enska en minni áhersla verði lögð á dönsku.

Flokkurinn leggur líka áherslu á að breytingar verði gerðar á skólakerfinu þannig að tryggt sé að miklu fleiri velji að fara í framhaldsnám eftir grunnskólann. Í dag er staðan þannig að einungis fjórir af hverjum 10 eru með framhaldsmenntun. Kim Kielsen formaður hins sósíalíska Siumut flokks bendir á að það sé ekki gott að 6 af hverjum 10 Grænlendingum geti ekki bjargað sér á öðru tungumáli en grænlensku. Enskan eigi að vera næsta tungumál sem kennt sé í skólum því hún gagnist miklu betur út í hinum stóra heimi heldur en danskan.