Erlent | 07.February

Fagnaðarlæti Demókrata komu Trump á óvart

Eftir því var tekið þegar Donald Trump forseti Bandaríkjanna hélt stefnuræðu sína á bandaríska þinginu í gær að mjög margir Demókratar klöppuðu ákaft fyrir forsetanum.

Það kom forsetanum á óvart að nokkrar þingkonur Demókrata, sem klæddar voru í hvítt til að mótmæla stefnu forsetans í til dæmis málefnum hælisleitenda, klöppuðu ákaft fyrir honum þegar hann minnti á þá staðreynd að störfum hefði fjölgað í bandaríkjunum og fleiri konur væru nú með vinnu vegna þess. En þingkonurnar klæddust líka hvítu til að minna á réttindabaráttu kvenna og að eitt hundrað áru eru frá því að konur fengu kosningarétt í Bandaríkjunum.

Ekki var minna klappað fyrir forsetanum af þingmönnum Demókrata, af báðum kynjum, þegar hann benti á að aldrei hefðu fleiri konur setið á þinginu en í dag.

Það að þingmenn Demókrata hafi klappað fyrir forsetanum hefur vakti athygli almennings og fjölmiðla sem fjallað hafa um málið og eru þeir ekki á einu máli um hvort góður hugur þingmanna og þingkvenna Demókrata hafi fylgt fagnaðarlátunum. Fögnuður Demókrata fór heldur ekki framhjá forsetanum og kom honum á óvart eins og almenningi og fréttamönnum.

Trump beindi máli sínu að þingkonum Demókrata og sagði „Þið ætluðuð ekki að gera þetta?“

Eins og venja er af samherjum forseta fögnuðu þingmenn og þingkonur Repúblikana reglulega ræðu forsetans með kröftugu lófaklappi og með því að standa upp.