Erlent | 09.September

Er vísvitandi verið að reyna að gera kosningarnar í Svíþjóð ógildar?

Eins og flestir vita eiga kosningar í lýðræðisríkjum að vera leynilegar. Aðrir á kosningastað eiga ekki að fá hugmynd um hvað aðrir en þeir sjálfir ætla að kjósa. Það hefur vakið athygli Íslendinga í Svíþjóð, sem þar hafa kosningarétt, að fyrirkomulagið í þingkosningunum í dag er þannig að allir sem nærstaddir eru geta séð hvaða flokk fólk ætlar að kjósa. Það er vegna þess að kjósandinn labbar að stöflum af kosningaseðlum og velur seðil þess flokks sem hann ætlar að kjósa, fyrir allra augum. Þar með eru kosningarnar ekki leynilegar lengur.

Gæti það verið vegna þess að verið sé að reyna að hræða kjósendur frá því að kjósa einn ákveðinn flokk, Svíþjóðardemókrata?

Minnir á kosningarnar á Íslandi til stjórnlagaþings sem dæmdar voru ólöglegar

Fyrirkomulagið minnir á kosningarnar sem haldnar voru hér á landi til stjórnlagaþings. Þar fór kjósandinn ekki í lokaðan kjörklefa til að merkja við þá sem hann vildi kjósa heldur voru lágir pappakassar sem lokuðust á þrjá vegu notaðir sem kjörklefar í opnu rými. Þannig sást til fólks á spjalli við vini og kunningja sem sátu við borð og voru að krossa við sína frambjóðendur. Sá sem stóð yfir þeim sem var að kjósa gat því séð við hvaða frambjóðendur viðkomandi krossaði. Það getur varla hafa talist leynileg kosning samkvæmt kosningalögum á Íslandi. Enda fór það svo að Hæstiréttur Íslands dæmdi kosningarnar ólöglegar.

Verði Svíþjóðardemókratar sigurvegarar, verða þá kosningarnar dæmdar ólöglegar?

Í fréttum erlendra miðla í Svíþjóð og Evrópu má lesa að góða fólkið hefur miklar áhyggjur af því hversu stór sigur Svíþjóðardemókrata verður. Verði hann of stór má velta fyrir sér hvort aðrir flokkar muni krefjast þess að kosningarnar verði dæmdar ólöglegar vegna kosningafyrirkomulagsins og vonast þannig til að vinna tíma til að geta endurskipulagt næstu kosningabaráttu og kosningar. Það skal tekið fram að skinna.is hefur ekki upplýsingar um hversu ströng kosningalög í Svíþjóð eru að þessu leiti. En óneitanlega er fyrirkomulagið undarlegt og ekki í samræmi við það sem gert er ráð fyrir almennt í lýðræðisríkjum. Að kosningar séu leynilegar.