Erlent | 11.April

Bandaríkin búa sig undir hernaðarátök

Bandaríkjamenn ætla að stefna einni flotadeild með flugmóðuskipið USS Harry S. Truman í broddi fylkingar til Miðausturlanda samkvæmt heimildum innan bandaríska flotans.

Flugmóðuskipið ásamt sjö árásaskipum hefur verið snúið af núverandi stefnu og í áttina að Miðausturlöndum. Um borð eru 6.500 sjóliðar. Flotadeildin mun sigla fyrsta áfangann með þýsku freigátunni FGS Hessen.

USS Harry S. Truman mun leysa af USS Theodore Roosevelt, sem nýverið kláraði fjögurra mánaða leiðangur til Miðausturlanda.

Tundurspillirinn Donald Cook, sem er útbúinn stýriflaugum, hefur einnig lagt af stað frá Kýpur og stefnir inn til Mið-Austurlanda, samkvæmt fyrrgreindum heimildum. Skipið er af Arleigh Burke-flokki og er með 60 Tomahawk stýriflaugar um borð.

Flotatilfærslurnar koma í kjölfar hótana Hvíta hússins um hernaðaraðgerðir gegn Sýrlandi fyrir meinta efnaárás í Douma, Sýrlandi.

Donald Trump forseti Bandaríkjanna hefur sagt að hann muni funda með ráðgjöfum sínum og ákveða hvernig eiga að bregðast við atvikinu.

,,Við höfum mikið af hernaðarvalkostum, og við munum láta ykkur vita nokkuð fljótlega," sagði Trump fréttamönnum á mánudaginn.

Rússneski herinn, sem rannsakaði stað meintrar efnaárásar, sagði hins vegar að ,,engin merki" væru um að efnavopnárás hefði átt sér stað.