Erlent | 04.January

Að sökkva bandarísku flugmóðurskipi mun leysa úr spennu á Suður-Kínahafi að sögn kínversks flotaforingja

Staðgengill forstöðumanns kínversks herháskóla sagði á fundi í Shenzhen í síðasta mánuði að spennan í Suður-Kínahafi gæti verið leyst með því að sökkva tveimur bandarískum flugmóðuskipum, samkvæmt frétt í news.com.au.

,,Það sem Bandaríkin óttast mest er að verða fyrir mannfalli," sagði aðstoðarflotaforinginn Lou Yuan, staðgengill forstöðumanns kínversku akademíunnar í hernaðarvísindum. Hann sagði það að sökkva einu flugmóðuskipi myndi drepa 5.000 manns og það að sökkva tveimur myndu tvöfalda þá tölu og það væri of mikið fyrir Bandaríkjamenn.

Brad Glosserman, sem er Kínasérfræðingur og prófessor við Tama-háskóla í Tókýó, sagði að athugasemd Lou endurspegli vaxandi trú innan Kína að Bandaríkin hafi misst viljann til að heyja stríð, samkvæmt frétt frá military.com.

Kínverjar trúa því að "Bandaríkjamenn séu orðnir veikgeðja ... [þeir] hafa ekki lengur áhuga á að fórna mannskap og við fyrstu merki um raunveruleg vandræði munu þeir snúa við og hlaupa," sagði Glosserman.

Í ræðu sinni sagði Lou að hægt væri að nýta eða misnota sér í hernaðarskyni ,,fimm hornsteina Bandaríkjanna“, sem eru ,,herinn þeirra, peningarnir þeirra, hæfileikar þeirra, kosningakerfi þeirra - og ótta þeirra við andstæðinga,“ samkvæmt frétt news.com.au.