Erlent | 29.January

200 sænskir lögregluþjónar búa við sérstaka vernd

Glæpaklíkur í Svíþjóð eru farnar að beina athygli sinni í meira mæli að einstaka lögreglumönnum með hótunum og ofbeldi. Hátt í 200 lögreglumenn þurfa að búa við sérstaka vernd af hálfu kollega sinna. Enn aðrir þurfa að huga að vel að öryggi í sínu nánasta umhverfi.

Á síðustu 10 árum hafa árásir á lögregluna versnað til mikilla muna. Nú er kveikt í lögreglubílum, handsprengjum hefur verið varpað að þeim og í október 2017 var sprengja sprengd á lögreglustöð í Helsingborg.

Dæmi er um að öll fjölskylda lögreglumanns þurfti að flýja heimili sitt og setjast að annarstaðar vegna hótana. Oft hefur fjölskylda lögreglumanns ákveðið að færa sig um set vegna þess að vopnuð glæpaklíka hefur tekið sér bólfestu nærri heimili þeirra.

Athuga hvort sprengja sé undir bílnum

Lögreglumenn hafa sagt frá því að þeir byrji á því að kíkja undir bílinn áður en þeir halda af stað í vinnu frá heimili sínu. Emma Cornberg, sem er umboðsmaður með sérstaka áherslu á öryggismál, segir í viðtali við Aftonblaðið að glæpaklíkur hafi breytt um aðferð. Nú sé það ekki lögreglan sem heild sem fái hótanir heldur einstaka lögreglumenn. Ætlunin sé að skapa ótta og sundrungu meðal óbreyttra lögreglumanna.

Flestar árásir í hverfum innflytjenda

Flestar árásirnar eiga sér stað í hverfum innflytjenda samkvæmt lögreglunni. Verstu hverfin eru innflytjendahverfin Rosengård í Malmø og Rinkeby í úthverfi Stokkhólms. Þar er ráðist á lögreglubíla og þeir brenndir og einnig er skotið á lögregluna. Niclas Andersson yfirmaður í lögreglunni í Stokkhólmi segir að kúltúrinn í þessum hverfum geri allt starf erfiðara. Það er þagnarregla í gildi. Fáir vilja vitna fyrir rétti.

„Þegar fólk verður vitni að því að brotist er inn hjá nágrannanum hringir fólk ekki á lögregluna. Þegar við mætum á staðinn vill fólk ekki segja neitt af hræðslu við að verða fyrir barðinu á glæpamönnunum. Þar fyrir utan ríkir vantraust á samfélaginu og á lögreglunni,“ segir hann í viðtali við Aftonblaðið.