Dagur B. Eggertsson segir að hann hafi frá fyrsta degi bætt kjör þeirra lægst launuðu hjá borginni. Þetta sagði hann í athyglisverðu viðtali í Kastljósi í kvöld. Ekki er að efa að viðtalið á eftir að vekja mikla umræðu í þjóðfélaginu.
En Dagur efast um að það hafi verið nógu vel kynnt hvað hann og borgin geri vel við þá lægst launuðu. Hann sagðist hafa trú á því að hægt væri að leysa allar deilur með samtali. En verkalýðshreyfingin hefur sagt að ekki sé hægt að eiga samtal við Reykjavíkurborg og að á tímabili hafi Dagur B. forðast að tala við Eflingu eða hafa nokkur afskipti af kjaradeilunni.
Borgarstjóri sagði í Kastljósviðtalinu að markmiðið væri að fólk gæti lifað af launum sínum og spurði þáttarstjórnandinn hann að því af hverju hann gæti þá ekki gengið að kröfum Eflingar. Dagur svaraði því til að það væri vegna þess að þær væru langt umfram lífskjarasamninganna.
Hann sagði að borgin væri að bjóða góðar kauphækkanir. Þegar hann var spurður af því hvert væri þeirra tilboð sagðist hann vilja fara yfir það. Hann sagði að lægstu grunnlaunin á leikskólanum væri núna 310 þúsund. Hann sagði að borgin væri að bjóða á grunni lífskjarasamninganna hækkun þannig að þessi laun yrðu 420 þúsund. Svo sagði Dagur: „Fyrir…ja, þetta er þá til dæmis ungt fólk sem er að koma, er að vinna til þess að eiga fyrir heimsreisu í stuttan tíma og út af álagsgreiðslunum sem hafa verið við lýði alveg frá þessum fyrsta degi mínum í embætti að þá færu ofan á þetta 40 þúsund krónur. Þannig fyrir dagvinnunna….“
„Eruð þið að bjóða það núna?“
„Já, þá fengi einhver sem kæmi til að vinna á leikskóla í eitt ár eða stuttan tíma 460 þúsund í dagvinnu.“
„Það er ófaglærð manneskja sem myndi ráða sig í leikskóla fengi 460 þúsund í laun?“
“Já.“
Dagur endurtók og ítrekaði að hann hefði frá fyrsta degi haft áhuga á kjörum þeirra lægst launuðu hjá borginni og bætt kjör þeirra meðal annars með því að gefa þeim ókeypis sundkort og með samgöngusamningum, sem væntanlega þýðir styrkur til að taka strætó eða kaupa sér hjól.