Reykjavíkurborg hefur sett fram áætlun til að takast á við afleiðingar kórónuveirufaraldursins hér á landi. Fyrirtæki hafa lokað umvörpum og neysla dregist svo saman að líklegt má telja að atvinnuleysi muni aukast. En var þó borgin með Dag í fararbroddi komin langt með að hrekja fyrirtæki úr borginni.
Í Reykjavík stjórnar meirihluti sem oft og mörgum sinnum hefur orðið uppvís um spillingu og sóun á skattfé borgarbúa. Má þar minna á braggamálið.
Forystumenn vinstrimeirihlutans tala í frösum, eins og frægt er orðið. Frægasti frasinn er sennilega frá fulltrúa flokks auðkýfinga sem kallast Viðreisn og mörgum þykir það nafn öfugmæli. Hér er verið að tala um Þórdísi Lóu Þórhallsdóttur borgarfulltrúa Viðreisnar þegar hún í viðtali við Sindra fréttamann á Stöð2 sagðist „brenna“ fyrir fólkið í borginni. En eins og allir vita er það eina sem brennur í borginni skattfé borgarbúa enda rétti Þórdís Degi B. og hinum brennuvörgunum eldspíturnar þegar hún og Viðreisn ákváðu að verða eitt hjól undir spilltum meirihlutanum í Reykjavík.
Í sjónvarpsfréttum á báðum rásum í kvöld sló Dagur B. Eggertsson met Þórdísar í pólitískum froðu-frösum.
Hann hélt því fram að skattgreiðendur í borginni myndu ekki taka á sig milljarða útgjöld borgarinnar vegna aðgerða til að dempa efnahagsleg áhrif af kórónaveirufaraldrinum!
Nei! Það yrði borgin sem tæki þann skell á sig.
Ekki skattgreiðendur í borginni.
Þessi ummæli hljóta að vera met í popúlisma?
Og ef til vill er þetta krísuástand vegna veirufaraldursins himnasending fyrir Dag og félaga til að fela spillinguna og óráðsíuna í útgjöldum sem bókuð verða sem kostnaður vegna kórónaveirunnar?
Orðrétt sagði borgarstjóri í fréttum í kvöld: „Aðgerðirnar fela það í sér að Reykjavíkurborg er að taka þetta högg á sig í stað þess að velta því yfir á fjölskyldur og fyrirtæki.“
Hann gefur það sem sagt í skyn að hann muni greiða þetta úr eigin vasa eða úr einhverjum dularfullum sjóðum sem hafa ekkert með skattfé Reykjavíkurborgar að gera.